Ferill 242. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 332  —  242. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um geðheilbrigðismál.


     1.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að byggt verði nýtt geðsjúkrahús?
    Ráðherra bendir á að heildaráætlun um uppbyggingu innviða heilbrigðiskerfisins til ársins 2030 var kynnt opinberlega 19. apríl sl. Þar kom fram að í öðrum áfanga uppbyggingar Landspítala sé uppbygging nýrrar geðheilbrigðiseiningar áætluð og að geðþjónusta verði ekki áfram í núverandi húsnæði geðþjónustu. Kostnaður við þessa uppbyggingu er áætlaður um 13 milljarðar kr.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að reistar verði lyfjalausar geðdeildir að erlendri fyrirmynd?
    Þingsályktunartillögur ráðherra um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 annars vegar og um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til ársins 2027 hins vegar hafa verið samþykktar á Alþingi. Þar er lögð áhersla á grunngildi sem hvetja til notendamiðaðrar og valdeflandi geðheilbrigðisþjónustu sem byggist á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð og endurhæfingu.

     3.      Hyggst ráðherra draga úr umfangi þvingunar og nauðungar? Ef svo er, með hvaða hætti?
    Nú í október hyggst ráðherra leggja fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997. Markmið frumvarpsins er einkum að skapa lagaramma um það verklag sem viðhaft er á heilbrigðisstofnunum hér á landi, sem felur í sér þvinganir, valdbeitingu eða annars konar inngrip í sjálfsákvörðunarrétt, frelsi og friðhelgi einkalífs sjúklinga. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um réttindi sjúklinga sem fela m.a. í sér lögfestingu á meginreglunni um bann við beitingu nauðungar nema í undantekningartilvikum í samræmi við lögin. Þá stendur til að lögfesta ný ákvæði um skilgreiningu nauðungar og fjarvöktunar, skilyrði fyrir beitingu nauðungar og fjarvöktunar auk málsmeðferðarreglna sem fylgja þarf við og í kjölfar beitingar slíkra inngripa, þ.m.t. skráningarskyldu tilvika, kæruheimildir og rétt til að bera mál undir dómstóla. Markmiðið er að lögfesta og skýra reglur til þess að tryggja betur réttindi sjúklinga. Verði frumvarpið að lögum skulu heilbrigðisstofnanir og starfsmenn þeirra sem endranær forðast að beita sjúklinga hvers kyns nauðung og ekki grípa til slíkra ráðstafana nema brýn nauðsyn krefji og þá í samræmi við fyrirmæli laga.
    Við gerð frumvarpsins var m.a. höfð hliðsjón af umfjöllun í skýrslu umboðsmanns Alþingis um eftirlitsheimsókn hans á lokaðar deildir geðsviðs Landspítala á Kleppi, réttargeðdeild, öryggisgeðdeild og sérhæfða endurhæfingargeðdeild sem kom út 16. október 2019, skýrslu um eftirlitsheimsókn umboðsmanns á bráðageðdeild 32C á Landspítala sem kom út 30. mars 2022 og skýrslu umboðsmanns um eftirlitsheimsókn hans á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri sem kom út 24. maí 2022.
    Efni frumvarpsins snertir sjúklinga á heilbrigðisstofnunum og heimilisfólk á hjúkrunarheimilum, aðstandendur þeirra og starfsfólk heilbrigðisstofnana og hjúkrunarheimila. Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við notendahópa, m.a. í sérstökum samráðshópi sem ráðherra skipaði en sá hópur var m.a. skipaður fulltrúum sem tilnefndir voru af Geðhjálp, Landssambandi eldri borgara, Hugarafli, Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp. Jafnframt var haft samráð við Landspítala, embætti landlæknis, dómsmálaráðuneyti og félags- og vinnumarkaðsráðuneyti með reglulegum fundum en unnið er að löggjöf um öryggisgæslu í félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og endurskoðun lögræðislaga í dómsmálaráðuneyti sem tengist efni frumvarpsins að einhverju leyti.